Á fimmtudaginn hófst hin árlega fjölskylduhátíð í Vatnaskógi, Sæludagar. Hún hefur verið haldin í um 30 ár en sú stærsta í sögunni verður líklegast þessi, enda verður 100 ára afmælinu fagnað yfir helgina. Ýmsir skemmtikraftar koma á svæðið, Regína Ósk, Páll Óskar, Jón Jónsson, Gunni og Felix og KK. Þar að auki verða hátíðarhöld og að sjálfsögðu kaka! Við hvetjum ykkur öll til að mæta.
Yfir helgina verða einnig tækifæri til að styrkja söfnunina, meðal annars með árlegu línuhappdrætti Skógarmanna. Þar verður hægt að vinna veglega vinninga og kaupa daga í sögu Vatnaskógar í leiðinni. Söfnunin verður einnig kynnt fyrir gestum og þeir hvattir til að taka þátt.
Gönguhópurinn kom í Lindarrjóðrið á svipuðum tíma og hátíðin hófst, þreyttir en ánægðir með ferðalagið. Þeir eru gríðarlega þakklátir fyrir góðan stuðning – markmiðið að safna fyrir einu ári náðist og gott betur en það!
Söfnunin er nú komin á 13. janúar árið 1932. Á þeim tíma höfðu nokkrir merkir áfangar náðst í sögu Vatnaskógar. Félagið Skógarmenn KFUM var stofnað 17. júlí 1929 og var þá hafist handa við að safna fyrir framtíðarskála í Vatnaskógi. Árinu áður var lítill skáli settur upp, fyrsti skálinn í sögu Vatnaskógar. Hann geymdi 9 kojur og lítið annað, en var settur upp á aðeins tveimur dögum! Þá var í fyrsta skiptið hægt að gista inni. Sumarið 1930
Þann 5. ágúst 1930 kom loks að því í sögu Vatnaskógar að konur fengu að hefja störf sín hér. Í mörg ár fengu konur einungis að vinna í eldhúsi Vatnaskógar. Þær sáu meðal annars um að baka og elda mat, þrif á húsum ásamt klæðnaði foringja. Í dag eru þó breyttir tímar og fá konur að vinna við all kyns fjölbreytt störf hér í skóginum, foringja, vinnumenn, forstöðu og margt fleira.