Þegar farið var í fyrstu ferðina í Vatnaskóg náðu vegir ekki lengra frá höfuðborgarsvæðinu en í Mosfellssveit. Því þurfti hópurinn, 19 drengir í fylgd foringja, að ganga stærstan hluta leiðarinnar. Ferðin tók tvo daga. Lagt var af stað frá húsi KFUM að morgni til 3. ágúst 1923 á Amtmannsstíg 2 og keyrt að bænum Þverárkoti í Mosfellssveit þar sem að piltarnir fengu sér skyr. Frá Þverárkoti hófst svo gangan. Þegar komið var í Kjós síðar um daginn var gistipláss fundið í hlöðu nokkri. Daginn eftir hélt ferðin svo áfram, yfir í Hvalfjörðinn og um kvöldið þann 4. ágúst kom hópurinn í Lindarrjóður þar sem búið var að tjalda og undirbúa kvöldmat. Var fögnuðurinn mikill.

Í tilefni 100 ára afmælisins kom upp sú hugmynd að fara ferðina aftur. Þeir Kristján Daði, Nói Pétur og Örnólfur Sveinsson ætla sér að gera það, 2-3. ágúst næstkomandi. Markmiðið er að fylgja fótsporum fyrsta flokksins eftir bestu getu, en lagt verður af stað frá Amtmansstíg 2, gist í Kjós og komið í Vatnaskóg daginn eftir. Gönguleiðin er um 50 kílómetrar, yfir tvö fjöll og tvær ár. Gönguhópurinn ætlar sér að safna áheitum í afmælissöfnun Vatnaskógar og hvetur fólk að styrkja hana. Markmiðið er að ná að safna fyrir heilu ári í söfnunina áður en að göngunni lýkur. Nú þegar hefur safnast fyrir fyrsta mánuðinum.

Hægt er að heita á drengina með því að styrkja söfnunina á Vatnaskogur100.is eða á Aur reikning Vatnaskógar, @Vatnaskogur. Einnig verður hægt að fylgjast með ferðalaginu á TikTok síðu Vatnaskógar, @Vatnaskogur, en þar verða sett inn nokkur myndbönd af ferðinni. Við hvetjum ykkur til að fylgjast vel með þessu ævintýri.

Áfram að markinu!