Í gær náðist sá áfangi að safnast hefur heil milljón í afmælissöfnuninni. Síðan þá hefur bæst enn frekar í og hefur nú náðst að safna fyrir fyrstu fjórum árunum í sögu Vatnaskógar. Frá formlegri byrjun söfnunarinnar á mánudag hafa móttökurnar verið gríðarlega jákvæðar og þakka Skógarmenn kærlega fyrir allan þann stuðning og heillaóskir sem hafa borist.

Í síðustu viku hófust framkvæmdir við nýjan matskála, eitt af þeim verkefnum sem söfnunin á að styrkja. Skálinn mun rísa á næstu árum og bjóða upp á bætta veitingaaðstöðu með gullfallegt útsýni yfir Eyrarvatn og Skarðsheiði. Meðfylgjandi eru myndir af byggingarsvæðinu og hönnun hússins.

Á þriðjudag kom frétt um söfnunina inn á Vísi og er hægt að lesa hana hér.

Við viljum minna á það að þau sem gefa að minnsta kosti 10.000 krónur til Vatnaskógar eiga rétt á skattfrádrætti, þar sem að Skógarmenn eru á almannaheillaskrá Skattsins. Það getur þannig verið ódýrara að gefa 10 daga heldur en 7 daga! Hámarksfrádráttur er 350.000 krónur á ári.

Við þökkum aftur kærlega fyrir frábæra fyrstu daga söfnunnar og hlökkum til að sjá enn fleiri fyrirtæki og fólk taka þátt og eignast daga í sögu Vatnaskógar. Hér eru nokkrir merkilegir atburðir sem gerðust yfir fyrstu fjögur árin í sögu Vatnaskógar:

4. ágúst 1923 kom fyrsti hópurinn í Vatnaskóg.
16. október 1923 var Disney-fyrirtækið stofnað.
25. janúar 1924 voru fyrstu vetrarólympíuleikarnir haldnir í Chamonix í Frakklandi.
1. janúar 1925 breyttist nafn höfuðborgar Noregs úr Kristjaníu og í Osló.
21. apríl 1926 fæddist Elísabet II Bretlandsdrottning.
Árið 1927 urðu íbúar jarðarinnar fyrst tveir milljarðar.

Áfram að markinu!