600pxÞað gleður okkur að tilkynna það að nú þegar hefur náðst að safna fyrir fyrsta árinu í sögu Vatnaskógar. Söfnunin var kynnt inni á Facebook hópnum Vinir Vatnaskógar í miðjum júní og voru fyrstu viðbrögð virkilega góð. Margir Skógarmenn gáfu strax eitthvað í söfnunina áður en að þessi vefsíða var sett upp. Einnig fékkst styrkur um 100 daga frá Verkís og eru Skógarmenn virkilega þakklátir fyrir hann.

Fyrsti hópurinn lagði af stað í Vatnaskóg 3. ágúst 1923 en kom ekki fyrr en degi síðar. Við miðum því við 4. ágúst 1923 sem fyrsta dag í sögu Vatnaskógar. Í þessari ferð voru 19 drengir ásamt foringjum og þar sem að enginn vegur lá um Hvalfjörðinn stoppaði bíllinn sem fór með hópinn á bænum Þverárkoti í Mosfellssveit. Þaðan var gengið yfir á Möðruvelli í Kjós þar sem gist var í hlöðu yfir nóttina. Daginn eftir var svo komið í Vatnaskóg um kvöldið og þar með hófst saga sumarbúðanna formlega.

Yfir þetta fyrsta ár var ýmislegt sem gerðist í heiminum. Hér koma þrjár áhugaverðar staðreyndir:
16. október 1923 var Walt Disney fyrirtækið stofnað.
25. janúar 1924 voru fyrstu vetrarólympíuleikarnir haldnir í Chamonix í Frakklandi.
Sumarið 1924 kom Séra Friðrik í fyrsta skiptið í Vatnaskóg en hann hafði verið erlendis sumarið 1923. Í þeirri ferð hitti hann meðal annars páfann og spjallaði við hann á latínu.

Skógarmenn þakka kærlega fyrir góðar móttökur og stuðning. 99 ár eftir, áfram að markinu!